Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
31.8.2009 | 21:48
Gildissvið Innheimtulaganna nýju nr. 95/2008.
Upp á síðkastið hefur verið deilt um hvort að reglugerð 37/2009 sem hefur að geyma gjaldskrá um innheimtubréf gildi um innheimtubréf frá lögmönnum. Neytendastofa hefur fullum fetum fullyrt að lögin gildi um slíka innheimtu. Án þess að rökstyðja nánar þá afstöðu sína sem er afar umdeild. Í lögunum sem reglugerð byggir á eru tvö lykilhugtök sem ráða úrslitum um það hvort lögin gildi um innheimtuna. Það eru hugtökin milliinnheimta og löginnheimta. Lögin skýra þessi hugtök lítið og hver sá sem ætlar að komast að lögfræðilegri niðurstöðu um gildissvið laganna getur ekki sleppt því að kryfja þau til mergjar. Það hefur ekki verið gert heldur eingöngu látið nægja að fullyrða hvert gildissvið laganna er. Slík fullyrðing hefur mikla þýðingu fyrir marga aðila og getur reynst mönnum dýrkeypt ef menn treysta henni án frekari skoðunar. Ég hef litið yfir lögin og frumvarp með þeim og eins og ég mun útskýra hér að neðan er það kristal tært að þau gilda ekki um innheimtubréf frá lögmanni.
Núgildandi lög um innheimtu l.nr. 95/2008 ( hér eftir innheimtulög) gilda um frum- og milliinnheimtu en ekki um löginnheimtu sbr. 1.mgr. 1.gr. laganna. Þessi hugtök eru um margt frekar óskýr og illa skilgreind í lögunum. Skýrast er þó hugtakið fruminnheimta en þá er átt skriflega viðvörun eftir gjalddaga kröfu um frekari aðgerðir sem bæði kröfuhafi og innheimtuaðilar geta sent. Þá hefst vandinn milliinnheimta er skilgreind skv. 2.mgr. 1.gr. innheimtulaga sem innheimtuaðgerðir eftir innheimtuviðvörun (fruminnheimtu) fram að löginnheimtu. Löginnheimta er skilgreind sem innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga. Þannig að við úrlausn þessa viðfangsefnis verður annað hvort að finna með tæmandi hætti út hvað milliinnheimta er eða komast að því hvenær löginnheimta hefst. Þar sem lögin bjóða ekki upp á þann möguleika að finna út með tæmandi hætti hvað sé milliinnheimta. Fer ég þá leið að finna út hvenær löginnheimta hefst. Með löginnheimtu er átt við innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga skv. 2.mgr. 1.gr. innheimtulaga.
Á grundvelli réttarfarslaga er málum m.a. stefnt, tekið er fjárnám, nauðungarsala framkvæmd og farið fram á gjaldþrot. Ekki er sérstaklega tekið fram í þeim lögum reglur um framkvæmd innheimtubréfs lögmanns til skuldara. Innheimtubréf lögmanns byggir hins vegar á þessum lögum þar sem hin löglega hótun sem fylgir slíku bréfi byggir á því að málið fari eftir réttarfarslögunum verði ekki greitt annars komi til frekari aðgerða skv. lögunum. Þetta er fyrsta skref lögmanns við beitingu laganna til að ná efndum fyrir kröfuhafa. Rótgróin venja hefur skapast við innheimtu að senda innheimtubréf áður en stefnt er og taka ákveðna þóknun fyrir.
Einnig er það tekið fram í athugasemdum við 1.gr í frumvarpi með innheimtulögunum að Ef lögmaður sendir innheimtubréf, án þess að innheimtuviðvörun hafi áður verið send, teldist það ekki innheimtuaðgerð á grundvelli réttarfarslaga heldur yrði bréfið væntanlega kallað innheimtuviðvörun eftir gildisstöku innheimtulaga. Þannig einungis ef innheimtubréf er sent án þess að lögboðin innheimtuaðvörun skv. 7.gr. innheimtulaga sé gerð þá falli það ekki undir löginnheimtu. Þannig er allveg kristal tært skv. þessu orðalagi að innheimtubréf frá lögmannstofu fellur undir löginnheimtu skv. réttarfarslögum nema þegar innheimtuviðvörun er ekki send frá kröfurhafa eða lögmanni áður en innheimta hefst. Engin ástæða væri til að taka þetta sérstaklega fram ef aldrei væri um löginnheimtu að ræða þegar lögmaður sendir frá sér innheimtubréf.
Óeðlilegt er að líta á innheimtubréf frá lögmanni sem eitthvað annað en löginnheimtu. Enda geta aðrir en lögmenn framkvæmt frum- og milliinnheimtu. Í innheimtulögunum er tekið fram í 4. gr hverjir geti fengið innheimtuleyfi. Þannig ef innheimtubréf frá lögmanni er ekki skilgreint sem löginnheimta er ekki gerður neinn greinamunur á lögmönnum og annars konar innheimtuaðilum. Sú útkoma er afar einkennileg og stenst ekki.
Jafnframt er í 12.gr innheimtulaga heimild til að setja reglugerð um þak á kostnað við innheimtu. Í þessari grein er talað um að sú upphæð skuli taka mið af kostnaði kröfuhafa sem skuli vera nauðsynlegur og hóflegur. Hér er ekki talað um lögmenn heldur kröfuhafa. Ef reglugerð á að gilda um innheimtuþóknun lögmanns sem áskilin er í innheimtubréfi frá honum af hverju á að miða þóknun hans við kostnaði kröfuhafa? Það hlýtur að vera vegna þess að ekki er verið að tala um innheimtuþóknun lögmanns heldur frum- og milliinnheimtu kröfuhafa, sem hann getur sjálfur innheimt eða látið aðra í það verk. Einnig má bæta hér við að tekið er fram í athugsemdum með 1.gr. laganna að innheimtuaðili skv. þessum lögum sé kröfuhafi nema annað sé sérstaklega tekið fram.
Einnig má benda á að síðastliðin áratug hefur verið mikil þróun í innheimtum á þann veg að sumar lögmannsstofur hafa þann háttinn á að skipta sér í deildir eða milli fyrirtækja innheimtum. Þannig að krafa sem hefur verið fruminnheimt af kröfuhafa er sett í innheimtu hjá einni deild og ef innheimtubréf og aðgerðir frá þeirri deild virka ekki þá er máli ekki stefnt heldur er málið sent í næstu deild sem sendir svo innheimtubréf þar sem næsta skref er stefna. Það passar vel við innheimtulögin að líta svo á að fyrsta bréf eftir gjalddaga kröfu sé fruminnheimta og að innheimtubréf frá fyrstu deild sé milliinnheimta og innheimtubréf sem send eru frá lögmannsstofum sem fara beint í innheimtu skv. réttarfarslögum löginnheimtu. Þessu til frekari stuðnings má benda á að í frumvarpi er sérstaklega nefnt að verið sé að sporna gegn óeðlilegum kostnaði á þessu frumstigi innheimtu.
Fruminnheimta er vel skýrð í lögunum og engin vafi er um inntak þess hugtaks. Hún telst eingöngu til bréfa sem send eru skv. 7.gr. innheimtulaga. Þannig að bréf frá fyrstu deild slíkra fyrirtækja sem ég nefndi hér fyrr verða þá að teljast miliinnheimta. Bréf frá næstu deild geta varla talist áfram milliinnheimta. Því þá er engin munur á þessum tveim deildum og innheimtuaðferðum. Sú niðurstaða stenst ekki þar sem augljóst er að enginn tilgangur er þá með því að vera með tvær deildir og mismunandi innheimtubréf ef þau eru í raun það sama. Því þykir undirrituðum líklegt að lög hafi verið sett til að sporna gegn of miklum kostnaði í innheimtum þessara millideilda sem sjá ekki um frekari innheimtuaðgerðir. Sá skilningur fær stoð í athugasemdum með lagafrumvarpi þar segir m.a. ,, Markmiðið með frumvarpinu er einkum að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, t.d. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja hann um. Það hefur tíðkast í milliinnheimtum að innheimta þóknun og kostnað bak við vinnu við innheimtu.
Heildarniðustaða eftir að hafa skoðað frumvarp og lög er að tilgangur þeirra er að setja reglur um milli-og fruminnheimtu kröfuhafa. Þetta er sagt með beinum hætti í frumvarpi og öll lögin eru lituð af þessum tilgangi. Í frumvarpi er sérstaklega nefnt að þau séu sett til að vinna gegn óeðlilega háum kostnaði á frumstigi. Einnig er tekið fram að þau gildi um kröfuhafa nema annað sé sérstaklega tekið fram. Þannig fjalla lög um innheimtu kröfuhafa sem hann getur sjálfur séð um eða látið lögmann um. Fyrir utan þessa frumaðgerðir sem kröfuhafi getur eftirlátið lögmanni gilda lögin ekki um innheimtuaðgerðir lögmanna. Að öllu þessu virtu er með engu móti hægt að skilja hvernig neytendastofa kemst að sinni niðurstöðu. Mikilvægt er að lögmenn berjist gegn þessum ranga skilning sem hefur fengið að fljóta ósnertur í fréttir líkt og um staðreynd sé að ræða. Einnig er slæmt fyrir skuldara sem í trausti þessara upplýsinga hugsanlega neita að greiða fyrir kostnað vegna innheimtubréfs lögmanna sem getur valdið þeim fjárhagslegu tjóni.
Svo má einnig að huga að því hver áhrif laganna eru séu þau skýrð eins og neytendastofa gerir í fréttablaðinu 22.08.2009 án rökstuðnings. Ef þeirra skilningur væri talinn réttur þá getur lögmaður/lögmannsstofa ekki tekið nema 1.250 kr fyrir lægstu kröfur en 5.500 kr. fyrir hæstu kröfurnar sbr. 6.gr. rgl nr. 37/2009. Um er að ræða mjög lágar upphæðir sem lögmaður mætti taka sem þóknun þennan þátt í sínu starfi. Oft þegar verið er að innheimta þá er staðan sú að skuldari er ekki illvilja eða óheiðarlegur heldur hefur komið upp staða sem hann sá ekki fyrir og hann ræður ekki við. Þá er hægt að koma til móts við hann með því að hann greiði skuld í pörtum t.d. mánaðarlega eitthverja x upphæð eða fái frest í einhvern tiltekin tíma. Þetta er algeng staða sem verður jafnvel en algengari nú þegar efnahagsástandið er í miklu uppnámi. Þegar skuld er greidd með þessum hætti er lögmaður lengi að fá sína þóknun og meiri vinni lögð í innheimtu. Ef hún er ákveðin of lág eru minni líkur á að lögmannsstofur veiti þennan möguleika og meiri líkur á að ef ein greiðsla dettur út að þá fari mál strax í hart. M.ö.o. lögmannsstofa hefur ekki efni á því að að veita of marga fresti og sjénsa. Líklegast yrði erfiðar að semja við lögmannsstofur á þessu grunnstigi innheimtu. En það er einmit mikilvægast að á þessu grunnstigi sé möguleiki á úrlausnum enda er það skuldaranum og kröfuhafa í hag. Ekki er það hagur skuldara að mál fari mun hraðar í harðari aðgerðir. Sem er mjög líklega framvindan ef lögmaður stendur frammi fyrir því að hann sé að koma út í tapi/mínus á því að senda stöðugt einhver innheimtubréf sem hann má mjög takmarka þóknun taka fyrir. Tökum dæmi : Maður er í vanskilum við nokkra aðila. Hann hefur lent í því að ofmeta sína fjárhagslegu getu. Hann er verið að innheimta af nokkrum lögmannsstofum. Hann getur samið við þær allar ef þær veita honum möguleika að greiða þetta í pörtum og eftir atvikum fá frest eitthvern mánuð/mánuði enda á hann von á pening síðar. Ef stofurnar geta allar gefið honum svigrúm með þeim hætti sem hann býðst til þá er honum mögulegt að gera upp við alla en það tekur sinn tíma. Ef þessu er snúið við þannig að stofurnar hafa ekki efni á því að hanga með mál í innheimtubunka og senda innheimtubréf með litlum kostnaði. Hver og ein ákveður að stefna honum þar sem hann getur ekki greitt á næstu vikum og halda svo áfram við venjulegar aðgerðir. Við þessar aðstæður hækkar hver einasta skuld svo mikið að hann getur ekki greitt, ekki einu sinni þegar sá peningur sem hann átti von á kemur. Maðurinn verður gjaldþrota, kröfuhafi fær ekki sinn pening og lögmaður er með óánægðan viðskiptavin sem þarf að greiða fyrir útlagðan kostnað og jafnvel einhverja þóknum sem er minni heldur en ef greiðsla hefði borist enda hefur vinna hans ekki borið árangur. Hér hafa í raun allir aðilar við borðið tapað.
Ef innheimtulögin eiga að gilda um innheimtubréf frá lögmannsstofun. Þá verður að athuga að skerðing á innheimtuþóknum er skerðing á atvinnuréttindum lögmanna þar sem rótgróin venja er fyrir þóknun vegna þessara innheimtna. Skv. 75. gr. Stjórnarskrárinnar (hér eftir sts) er kveðið á um að atvinnuréttindi megi ekki skerða nema almannahagsmunir krefjist þess og þá með lögum. Í lögum um löginnheimtu er í 12.gr. að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð þar sem kveðið er á um hámarksfjárhæð sem krefja má skuldara vegna innheimtukostnaðar. Þar er talað um nauðsynlegan og hóflegan kostnað kröfuhafa. Þetta orðalag er mjög rúmt og ráðherra er í sjálfvald sett hversu hátt þak innheimtukostnaðar er. Eina viðmið sem hann fær er kostnaður kröfuhafa en ekkert er tekið í reikning kostnaður lögmanns á að halda uppi rekstri m.a. vegna starfsfólks og tækjum. Lágmark er að lög mæli fyrir um umfang og takmörk skerðingar. Lagastoð reglurgerðar þarf að vera mun skýrari þegar stjórnarskrá áskilur lagaaboð. Í Hrd. 1996/2956 sem almennt er kallaður Samherjadómurinn er meðal annars sagt [H]inum almenna löggjafa [er] óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni. Löggjöfin verður að mæla fyrir um meginreglur, þar sem fram komi takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem talin er nauðsynleg.. Þannig að ef lögin eru skilinn á þann ótrúlega veg að þau gildi um innheimtubréf lögmanns þá er að minnsta kosti ljóst að skoða þarf sérstaklega hvort reglugerð hafi næga lagastoð. Ef ekki brýtur hún gegn 75.gr. sts.